Ekadashi – JógaFöstur

Fengið í láni frá Dagdreymir

Þeir sem stunda jóga í einhvern tíma komast fljótt að því hve mikilvægt það er að huga að mataræðinu. Almenn þumalputtaregla er sú að borða ekki tveimur tímum fyrir iðkun og bíða í klukkustund með að borða eftir iðkun. Það er einfaldlega vegna þess að í jóga er líkaminn teygður og lagður saman þannig að óþægilegt getur verið að hafa fullan maga. Eftir jóga er svo mælt með að leyfa áhrifum jóga að flæða um líkamann áður en hann þarf að snúa sér að meltingarstarfi.

Í yogafræðum er talið gott að fasta á 11. degi eftir fullt tungl og 11.degi eftir nýtt tungl.  Ég las einhvern tíma um þetta og pældi ekkert meira í því en þetta var rifjað upp fyrir mér á kundalini jóganámskeiði í byrjun ársins. Föstur eru kannski ekki allra en fyrir mig er þetta frábært.

Grænmeti og ávextir eru leyfðir ef hungur og orkuleysi verður yfirþyrmandi, bæði í safa formi og hráu. Fasta í einn dag með reglulegu millibili hægir á lífstaktinum og gefur manni færi á að líta inn á við og jarðtengja sig.

Það er líka gagnlegt að fasta í stuttan tíma í einu fyrir efnaskiptin og nota þetta sem tæki til að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd eða lið í heilbrigðu þyngdartapi skv. t.d. Brad Pilon sem skrifaði Eat stop eat.

Hægt er að lesa sér til um þetta, bæði hugmyndafræðilega út frá tilvistarspeki og líkamlegri gagnsemi út um allt net með því að leita eftir Ekadashi eða Ekadashi vrata. Bæði er það áhugaverð og upplýsandi umfjöllun.

Hér er dagatal fyrir þessa daga 2013.  Á þessu ári er það dagurinn í dag, 9. des og 23. des sem eru Ekadashi dagar.

Hér fylgir uppskrift af vínberjasafa;  gotterí á ‘föstu’- dögunum. Ef það er kalt úti set ég engifer í safann því það hitar mann að innan, það er val.

Ef ég á ekki lime afþýði ég bláber (hella einni hraðsuðukönnu yfir þau í sigti og voilá! tilbúin) og set þau í staðinn. Vínber eru ein og sér með skrýtið bragð sem er ‘geymslulegt’ en samt gott þess vegna nota ég eplin líka. Allt sett í safapressuna og drukkið eftir þörfum gegnum ‘föstu’daginn.

  • 1/2 kg vínber (steinalaus)
  • 2 epli
  • 1 lime
  • 1 cm engiferbútur ef vill

Skammdegis-jóga

Mörg okkar finna fyrir andlegum og líkamlegum breytingum þegar skammdegið skellur á með fullum þunga og veturinn tekur völdin.

Algengt er að þunglyndi eða depurðareinkenni geri vart við sig eða einfaldlega minni orka til athafna. Þunglyndislyf eru oft nauðsynleg til að hjálpa yfir erfiðasta hjallann. Einnig þarf að huga að því að D-vítamín inntaka sé næg en aðaluppspretta D-vítamíns er úr sólarljósinu sem augljóslega dugir ekki til í skammdeginu. Ráðlagður dagskammtur hefur verið aukinn og er nú mælt með 1000IU daglega. Einnig er hægt að taka slatta einu sinni í viku hverri en muna að D-vítamín er fituleysanlegt og því best að taka með mat sem inniheldur einhverja fitu auk þess sem kalk og D-vítamín vinna saman og ætti því að taka kalkríkan mat með D-vítamínskammtinum. Einnig er hægt að fara í ljósabekk en muna að slíkt er best í hófi.

Þeir sem glíma við verkjasjúkdóma finna oft fyrir versnun einkenna í skammdeginu og kuldanum. Liðverkir versna oft í kulda og margir bregðast við með því að hreyfa sig minna sem veldur meiri stirðnun og meiri verkjum.

Eitt af því sem hægt er að gera til að létta sér lífið í skammdeginu er að stunda jóga. Í jóga er líkaminn teygður og styrktur eftir margreyndu kerfi sem ætlað er að hafa áhrif á innkirtlastarfssemi og líðan. Boginn á myndinni hér er ein af þessum stöðum sem talin er vera góð í þessu tilfelli.

Hér er myndband með Esther Ekhart sem er með YouTube rásirnar EkhartYoga og Yogatic. Í þessu myndbandi hefur hún sett saman æfingalotu sem örvar nýrnaorkuna til að geta tekist betur á við skammdegið og veturinn.

Desember jóga

Í desember spretta oft upp tilboð þar sem fólki er boðið að komast í kjólinn fyrir jólin eða sjá tólin fyrir jólin.

Simply Yoga ætlar að bjóða upp á að jóga sig inn í jólin og kannski fylgir kjóllinn eða tólin með en það er hvers og eins að setja sér slík markmið.

Hins vegar er það þannig að á aðventunni verðum við oft fyrir gríðarlegu áreiti vegna auglýsinga og pressu um að jólin verði að vera svona og hinsegin og ef það er ekki farið á fullt við undirbúning verði allt misheppnað. Við viljum ekki taka þátt í því og teljum að jóga sé kjörin leið til að fara í gegnum þennan mánuð í góðu jafnvægi þar sem við tökum okkur stund til að sinna okkur sjálfum og loka úti áreitið og setja verkefnalista jólanna til hliðar.

Við höfum ákveðið að vera með jógatímana okkar á þriðjudögum og fimmtudögum í desember í Austrasalnum en tímasetningin er núna 18:15-19:30.

Verið margvelkomin

Jóga er fyrir alla!