Nokkur orð um Yin Yoga

Hvað er YYþetta YinYoga?

Google getur auðvitað svarað þér en ég ætla að reyna að gefa hér örstutt en vonandi upplýsandi svar á skiljanlegri íslensku.

Yin yoga er hin hliðin á líkamsstöðu/asana þætti jógaiðkunar.
Flestir hafa verið að stunda jóga þar sem vöðvar eru virkjaðir í hreyfingu, Yang Yoga.Y1

Yin yoga er fyrir liðamót, vöðvafestur og tengivef. Þess vegna hitum við ekki upp í Yin yoga. Við viljum að vöðvarnir séu óáreittir og mjúkir til að komast betur að liðum og tengivef. Sérstaklega er unnið með mjaðmir, fætur og neðri hluta baks. Yin Yoga er nauðsynlegt á móti Yang yoga og það eykur getu okkar í Yang yoga. Regluleg ástundun Yin með Yang gefur iðkun okkar jafnvægi.

Ólíkt Yang yoga þá er lítið flæði og lítil kraftnotkun í Yin yoga. Áherslan er á algjöra kyrrð. Oft tala ég um að fólk þurfi að læra að vera í eigin skinni og auka meðvitund um líðan sína og líkamsvitund. Í YinYoga er verkefnið nákvæmlega það; að vera kyrr í eigin skinni, vera meðvitaður og njóta þess að finna þá opnun sem verður í líkamanum.

Hvað gerum við í YinYoga?

Þrennt þarf að gera til stunda Yin:

Í fyrsta lagi; fara í stöðuna alveg slakur en samt út að eigin þolmörkum en aldrei yfir þau.
Í öðru lagi sem er mikilvægast að halda stöðunni kyrr. Án þess að fitla, iða, skoða á sér neglurnar, plokka, pota og bora í nefið. Bara vera, anda og eftir rúma mínútu fer líkaminn að gefa eftir. Eina hreyfingin sem á sér stað er þegar líkaminn fer sjálfviljugur dýpra inn í stöðuna. Stöðu er haldið í 3-10 mínútur.

Í þriðja lagi þá er að fara úr stöðunni. Vegna þess hve lengi er haldið þarf að fara rólega til baka og framkvæma létta nudd eða sveifluæfingu á eftir.

Að eins um vöðva, bein, liðamót og tengivef

Í vöðvum eru þéttir þræðir sem eru rakt efni, teygjanlegir og bregðast hratt við áreiti s.s. togi og endurteknum hreyfingum. Þeir festast á bein og fara oftast yfir liðamót, sumir fleiri en ein. Þeir festast einnig við fasciuna, utan um vöðva, himna sem tengd er neðsta húðlagi. Vöðvafestingar eru hins vegar þurrari, stökkari og bregðast ekki hratt við togi og áreiti.Y2

Í Yang yoga pössum við mjög vel líkamsstöðuna til að áreita ekki liðamót, í Yin áreitum við liðamót og vöðvafestur. Áreitið þarf hins vegar að vera rólegt og langvarandi. Fernt á sér stað við liðamót og festur þegar við stundum Yin. Við komum í veg fyrir samfall, ótímabæra hrörnun, samgróning og aukum rakaflæði.

Yoga hefur þann frábæra eiginleika að bæði styrkja og lengja vöðva meðan flest önnur hreyfing sem styrkir vöðva á það til að stytta vöðvana. Hins vegar finna margir sem hafa stundað jóga í einhvern tíma að ákveðin stöðnum verður í liðleika. Þá kemur Yin sterkt inn og oft finnst munur á hreyfigetu strax eftir fyrstu æfingu.

Að lokum

Vinsældir jóga hafa aukist gríðarlega síðustu ár. Flestir byrja að stunda jóga byggt á líkamsæfingum YangYoga. Smátt og smátt finna iðkendur fyrir aukinni líkamsvitund og þeirri hugarró sem fylgir öndunaræfingum og slökun sem er órjúfanlegur hluti jógaæfinga. Jóga er heildstætt kerfi, lífsstíll. Njóttu allra hliða þess.

Namaste

Sarvangasana – Axlastaða

Stundum kölluð drottningin eða móðir allra asanas (jógastaða); axlastaðan er áhrifamikil staða sem nær til allra líkamshluta eins og felst í nafni hennar sarva = allir, anga = líkamshlutar, asana = staða.

Þessi staða gæti litið út fyrir að vera mjög flókin í framkvæmd við fyrstu sýn en svo er í raun og veru ekki ef saman fer þokkalegur styrkur í miðhluta (core) líkamans og líkamsvitund. Ef farið er rétt að öllu og varkárni og eigin takmarkanir hafðar í huga ætti þessi staða að gefa meira en hún tekur.

Til að byggja upp styrk í miðhluta líkamans er gott að gera stöður eins og navasana eða bátinn.

Fyrir þá sem þurfa, er gott að nota teppi sem sett er undir axlirnar og höfuðið stendur út af. Það er gert til að taka álagið af hálsinum.

Axlastaðan er ein af þeim jógastöðum sem kallast inversions eða umpólunarstöður, þar sem líkamanum er snúið á hvolf. Slíkar stöður eru taldar vera endurnærandi og hafa góð áhrif á æðakerfið og sogæðakerfið auk þess sem þær geta létt verulega á bakverkjum.

Jákvæð áhrif axlastöðu eru til dæmis:

  • Róar taugakerfið; léttir á streitu og þunglyndi
  • Örvar skjaldkirtil
  • Teygir á herðum og hálsi
  • Styrkir miðjuvöðva líkamans
  • Bætir meltingu
  • Getur dregið úr einkennum tíðahvarfa, skútabólgu og síþreytu

Eftirfarandi þarf að meta áður en farið er í axlastöðu eða finna útfærslu sem hentar:

  • Hálsmeiðsli
  • Hár blóðþrýstingur
  • Höfuðverkir

Ennfremur er lagt til að konur fari ekki í axlastöðu meðan á blæðingum stendur þar sem staðan snýr við eðlilegu flæði líkamans á þeim tíma. Það þarf hver að meta fyrir sig.

Hér er myndband sem sýnir hvernig á að bera sig að og einnig er þar sýnd ‘auðveldari’ útgáfa. Síðustu 2 mínúturnar er farið vandlega í að útskýra hvað er rétt, hvernig megi framkvæma þar og líka sýnt hvað er rangt.