Skammdegis-jóga

Mörg okkar finna fyrir andlegum og líkamlegum breytingum þegar skammdegið skellur á með fullum þunga og veturinn tekur völdin.

Algengt er að þunglyndi eða depurðareinkenni geri vart við sig eða einfaldlega minni orka til athafna. Þunglyndislyf eru oft nauðsynleg til að hjálpa yfir erfiðasta hjallann. Einnig þarf að huga að því að D-vítamín inntaka sé næg en aðaluppspretta D-vítamíns er úr sólarljósinu sem augljóslega dugir ekki til í skammdeginu. Ráðlagður dagskammtur hefur verið aukinn og er nú mælt með 1000IU daglega. Einnig er hægt að taka slatta einu sinni í viku hverri en muna að D-vítamín er fituleysanlegt og því best að taka með mat sem inniheldur einhverja fitu auk þess sem kalk og D-vítamín vinna saman og ætti því að taka kalkríkan mat með D-vítamínskammtinum. Einnig er hægt að fara í ljósabekk en muna að slíkt er best í hófi.

Þeir sem glíma við verkjasjúkdóma finna oft fyrir versnun einkenna í skammdeginu og kuldanum. Liðverkir versna oft í kulda og margir bregðast við með því að hreyfa sig minna sem veldur meiri stirðnun og meiri verkjum.

Eitt af því sem hægt er að gera til að létta sér lífið í skammdeginu er að stunda jóga. Í jóga er líkaminn teygður og styrktur eftir margreyndu kerfi sem ætlað er að hafa áhrif á innkirtlastarfssemi og líðan. Boginn á myndinni hér er ein af þessum stöðum sem talin er vera góð í þessu tilfelli.

Hér er myndband með Esther Ekhart sem er með YouTube rásirnar EkhartYoga og Yogatic. Í þessu myndbandi hefur hún sett saman æfingalotu sem örvar nýrnaorkuna til að geta tekist betur á við skammdegið og veturinn.